Kvennastörf

Hvað er #kvennastarf?

Tækniskólinn og Samtök iðnaðarins hafa, í samstarfi við alla iðn- og verkmenntaskóla á landinu, hrundið af stað átaki sem ber nafnið #kvennastarf. 

Algengt er að talað sé um „hefðbundin kvennastörf“  Með #kvennastarf er ætlunin að brjóta niður úreltar hugmyndir og benda ungu kynslóðinni á að fyrir bæði kynin eru allar leiðir færar í námi og starfi.

Tilgangurinn er m.a. að vekja athygli á fjölbreyttum störfum í iðn-, tækni- og verkgreinum og benda á þann kynjamun sem hefur viðgengist í sumum starfsstéttum. Í nútímasamfélaginu á Íslandi telja margir að jafnrétti kynjanna ríki á flestum sviðum. En er raunin sú?

Myndir – myndbönd – heimasíða

Átakið hófst á birtingu ljósmynda, sem prýða nú mörg strætisvagnaskýli á höfuðborgarsvæðinu. Myndirnar sýna stelpur sem eru nemendur í viðkomandi iðngrein og er ætlað að varpa ljósi á glæsilegar fyrirmyndir sem stunda nám eða vinna við þessi störf.

Gefin verða út myndbönd um nám og störf kvenna í nokkrum faggreinum. Myndböndin segja sögu kvenkyns frumkvöðla í karllægum iðngreinum og sögur kvenna sem eru nemendur í dag eða vinna við greinina.

Vefurinn kvennastarf.is er kominn í loftið og þar má finna gagnlegar upplýsingar um málefnið og skemmtilega nálgun í gegnum samfélagsmiðla. Á vefsíðunni er t.d. að finna tölfræðiupplýsingar sem sýna óútskýranlegan kynjahalla í nokkrum starfsgreinum.  

Allir, bæði fólk í verk- og iðngreinum og í öðrum starfsstéttum, eru hvattir til að taka þátt og virkja hashtaggið #kvennastarfmeð því að setja myndir úr námi og starfi eða öðru sem tengist átakinu, inn á samfélagsmiðla á borð við Twitter, Instagram og Facebook. Ekkert starf er ekki kvennastarf. Konur geta starfað við það sem þeim sýnist og það sama gildir um karlmenn

Tilgangur og markmið

Átakinu #kvennastarf er ætlað að vera stelpum og ungu fólki hvatning til að skoða alla möguleika í vali á námi og framtíðarstarfi og horfa opnum augum á hvar áhugasvið þeirra liggur. Allir eiga að geta starfað við það sem þá langar til.

Iðn- og verkmenntaskólar stefna á fjölgun fagmenntaðs fólks og markmið þeirra er að 20% grunnskólanema velji iðn-, tækni- og verkmenntun árið 2025 og að lágmarki 30% árið 2030.

Með #kvennastarf er ætlunin að sýna fram á að kynjahallinn sem er í iðn- og verkgreinum er óþarfur. Ef ungt fólk af báðum kynjum sér tækifæri í starfsmenntun, verður auðveldara að fjölga nemendum í þessum greinum og fleira fagmenntað fólk verður til í íslensku atvinnulífi.

Fagráð herferðar:

Sá breiði hópur skóla og samtaka sem stendur að baki #kvennastarf hefur skipað sérstakt fagráð sem í sitja: 

  • Jón B. Stefánsson – skólameistari Tækniskólans  
  • Ársæll Guðmundsson – skólameistari Borgarholtsskóla, BHS 
  • Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir – skólameistari Fjölbrautaskóla Breiðholts, FB                       

Talsmenn #kvennastarf:

Ólafur Sveinn Jóhannesson – s: 665 1155
Ágústa Sveinsdóttir – s: 699 2264

Samstarfsaðilar 

Nokkrar myndanna sem birtast í herferðinni: