Líf og fjör og fár í Flóa

Hið árlega Flóafár FSu fór fram föstudaginn 21. mars í kjölfar tveggja Kátra daga með tilheyrandi uppbroti á skólastarfi og hefðbundinni stundaskrá nemenda. Flóafárið er í megindráttum liðakeppni nemenda sem stendur yfir frá morgni fram yfir hádegi með tilheyrandi fjöri og gleði. Þeir sem ekki hafa upplifað Flóafárið gætu átt erfitt með að gera sér í hugarlund hversu umfangsmikið og margþætt verkefnið er í raun og veru. Nemendur leggja á sig ómælda vinnu í aðdragandanum og sýna fram á einstaka hæfni, samvinnu og liðsheild, gula skólanum til sóma.

Flóafársnefnd hefur yfirumsjón með verkefninu. Í ár var hún skipuð kennurunum Önnu Kristínu, Kristjönu Sigríði og Dóru Björk og fyrir hönd nemenda voru fulltrúar íþróttaráðs, þeir Dagur Rafn formaður, Bjarni Valur og Garðar Freyr. Nefndin auglýsti eftir liðsstjórum í janúar og 11 öflugir nemendur svöruðu kallinu. Fimm frábær lið mættu til leiks í ár, hvert með sína sérstöðu: Verksmiðja jólasveinsins, Mamma Mía, Skrifstofan 9 – 5, Brazilía og Víkingar. Þeir síðastnefndu stóðu uppi sem sigurvegarar Flóafárs með öruggu forskoti fánaberans sem þaut fyrstur í mark með liðsfánann. Liðin voru með þaulæfð skemmtiatriði, hvert öðru glæsilegra. Að lokinni verðlaunaafhendingu tóku liðin til hendinni og gengu frá öllu sem til hafði verið tjaldað í fárinu og fengu lof fyrir einstaklega góða umgengni og þrif. Áður en við er litið er Flóafárinu lokið og eftir standa minningar og ómetanleg reynsla.

Allt skólasamfélagið tekur höndum saman til að dagurinn geti orðið að veruleika. Fyrirkomulag þrautakeppninnar er á þá leið að starfsfólk skólans er parað saman og hvert par ákveður búning og býr til þraut sem liðin leysa á sem skemmstum tíma. Þrautirnar voru 33 talsins að þessu sinni og hver annarri ófyrirsjáanlegri þó yfirskriftir þeirra séu alltaf þær sömu. Má þar nefna þrautir eins og talnaþraut, skynfærin, tónlist, hrylling, bókasafn, heilabrot og aflraunir svo fátt eitt sé nefnt. Þess má geta að búningar starfsmannaparanna eru gjarnan með sterka skírskotun í viðfangsefni þrautanna. Hvert lið tilnefnir tvær tískulöggur sem hafa það hlutverk að dæma búninga starfsmanna. Það er ekki öfundsvert hlutverk því metnaðurinn er mikill í hópnum sem keppist við að hreppa viðurkenningu fyrir sturlaðasta starfsmannadressið. Að þessu sinni voru það Ingunn Helgadóttir og Katrín Rut Sigurgeirsdóttir sem hlutu viðurkenninguna en hryllingur var þeirra þema.

Liðsstjórar fá upplýsingar um heiti þrauta og staðsetningu þeirra. Í framhaldinu kortleggja þeir með sínu fólki þá leið sem er vænlegust til vinnings, einnig þarf að ákveða hvaða liðsmenn eigi að leysa þær. Kennarar hafa frjálsar hendur í þrautagerð og því ekki á vísan að róa hjá liðsstjórum þegar þeir skipuleggja keppnina, oftar en ekki er snúið út úr yfirskriftinni og þrautin snýst um eitthvað allt annað en þar stendur. Að auki keppa liðin um besta svæðið, búninga, fána, heróp, liðsmynd, að leggja fallega á borð og besta skemmtiatriðið. Lögð er áhersla á að allir nemendur skólans tilheyri og geti tekið þátt í fárinu á eigin forsendum. Flóafár er samvinnuverkefni sem krefst bæði skapandi sem og gagnrýninnar hugsunar. Nemendur fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr við krefjandi en skemmtilegar aðstæður. Undirbúningur fársins dreifist á nemendur skólans, mismikið eftir hlutverkum.

Andrúmsloftið í skólanum tók stakkaskiptum í aðdragandanum og gangar skólans iðuðu af atorku í öllum hléum, greinilegt að eitthvað mikið stóð til. Undirbúningurinn náði hámarki daginn fyrir fárið að Kátum dögum loknum. Þá byrjuðu liðin að byggja upp sín þemasvæði í miðrými skólans, sem tók á sig ævintýralega mynd. Keppnin sjálf er svo ræst snemma á föstudagsmorgni að lokinni hópmyndatöku og marseringu liða í sal. Þegar litið er til baka er hægt að greina ólíkar dyggðir í fari nemenda meðan á vinnunni stendur. Má þar nefna dugnað, áræðni, þrautseigju, samskiptahæfni, ábyrgð, fyrirhyggju, virðingu og umburðarlyndi.

Að margra mati: Hápunktur skólaársins!

Anna, Kristjana og Dóra.