Líffræðinemar í heimsókn
Þriðjudaginn 16. febrúar heimsóttu þau Bjarki Már Jóhannsson, Jóhann F. Rúnarsson og Margrét Aradóttir, líffræðinemar frá HÍ, nokkra raungreinahópa hér í FSu. Þau eiga það öll sameiginlegt að sitja, eða hafa setið, í stjórn Haxa, Hagsmunafélags líffræðinema. Kynntar voru fyrir nemendum FSu hinar fjölbreyttu greinar líffræðinnar, uppbygging námsins, starfssvið og -möguleikar að ógleymdu félagslífinu. Í kynningu þeirra þriggja voru nokkrir líffræðinemendur við HÍ teknir sem dæmi um hvað verið er að gera og er gaman frá því að segja að tveir þeirra eru fyrrum nemendur í FSu. Áhugi nemenda fyrir kynningunni var nokkuð góður og gafst þeim þarna tækifæri á að spyrja þríeykið spjörunum úr í tengslum við námið. Bent er á vefsíðu HÍ fyrir upplýsingar um líffræðinám í HÍ; þaðan er einnig hægt að vafra yfir á síður annarra námsgreina.