Lystitúr til Reykjavíkur

Mánudaginn 27. október héldu nemendur í áfanganum ÍSLA, þar sem fram fer kennsla í íslensku sem öðru máli, í árvissa menningarferð til Reykjavíkur, svokallaðan lystitúr. Með í för voru kennarar áfangans, Elín Una Jónsdóttir og Hrefna Clausen.

Í Reykjavík var fyrst staðnæmst við Hallgrímskirkju og styttu Leifs Eiríkssonar á Skólavörðuholti þar sem nemendur léku dæmigerða ferðamenn í höfuðborginni. 

Leiðin lá niður Skólavörðustíg en þar var litið inn í nokkur listagallerí með íslensku handverki og sest niður á kaffihúsi í Bankastræti. VíkingarNæsti viðkomustaður var Landnámssýningin í Aðalstræti þar sem nemendur brugðu sér aftur til Reykjavíkur landnámstímans með aðstoð margmiðlunartækni. Eftir var tekið hve nemendur lifðu sig einlæglega inn í gamla tímann!  

Að loknum sameiginlegan kvöldverð í miðbænum var stefnan tekin á Háskólabíó þar sem fyrir valinu var kvikmyndin Fúsi, framlag Íslendinga til Norrænu kvikmyndaverðlaunanna. Daginn eftir voru verðlaunin afhent og féllu einmitt í hlut Íslendinga. Gerðu nemendur góðan róm að myndinni.

Lystitúrinn var farinn með það markmið í huga að styrkja samlíðan nemenda og veita þeim tækifæri til að upplifa fjölbreyttar hliðar lands og þjóðar.