Magnús Borgar í lokakeppnina
Nemandi á lokaári í FSu, Magnús Borgar Friðriksson, náði þeim góða árangi á dögunum að komast áfram í Stærðfræðikeppni framhaldsskólanema 2010-2011 á efra stigi. Keppnin var haldin 13. október sl. og fór fram á tveimur stigum, neðra stigi fyrir nemendur á 1. og 2. ári framhaldsskóla og efra stigi fyrir nemendur á 3. og 4. ári. Við F.Su. tóku þátt 9 nemendur, 2 á neðra stigi og 7 á efra stigi. Á þriðja hundrað nemenda á hvoru stigi á landinu öllu tóku þátt í keppninni. Tuttugu og einn efstu á neðra stigi og tuttugu og fimm á efra stigi öðlast þátttökurétt í lokakeppninni sem haldin er á vorönn. Sigurvegurum á hvoru stigi fyrir sig gefst kostur á að taka þátt í Norrænu stærðfræðikeppninni sem fer fram samtímis á öllum Norðurlöndunum. Í framhaldi af þessari keppni er svo Alþjóðlega ólympíukeppnin í stærðfræði sem fram fer í Hollandi í júlí 2011. Þangað verða væntanlega sendir sex keppendur sem valdir verða á grundvelli keppnisferils vetrarins í stærðfræði. Magnúsi er óskað til hamingju með árangurinn og velfarnaðar í framhaldinu