Menningarferð frönskunemenda
Föstudaginn 26. janúar sl. fóru 20 frönskunemendur frá FSu ásamt Hrefnu Clausen frönskukennara í menningarferð til Reykjavíkur í langferðabíl frá Guðmundi Tyrfingssyni.
Á suðurleiðinni æfðu nemendur sig í frönsku með því að látast vera frönskumælandi ferðamenn á ferð um Suðurland. Ekki var slegið slöku við námið og unnu nemendur sleitulaust að lausn verkefna svo kennari mátti hafa sig allan við að koma þeim út úr rútunni þegar til höfuðstaðarins var komið, þvílíkt var kappið við lausn verkefna.
Fyrst var gengið um miðbæinn sem sumir nemendur höfðu aldrei áður heimsótt. Eftir þá skoðunarferð var stormað á franskættaða veitingahúsið Café Paris við Austurvöll þar sem hópurinn átti pantað hádegisverðarborð. Nemendur prófuðu ýmsa, framandi rétti m.a. snigla, franska lauksúpu, crème brûlée og café au lait. Glatt var á hjalla og nemendur nutu þess að sitja saman, fylgjast með bæjarlífinu og njóta góðra veitinga í fallegu og ,,frönskulegu’’ umhverfi.
Eftir góðan hádegisverð var stormað vestur í Háskólabíó þar sem franska sendiráðið í Reykjavík og Alliance Française bauð íslenskum framhaldsskólanemendum í frönskunámi uppá ókeypis kvikmyndasýningu í tilefni af Frönsku kvikmyndahátíðinni 2018. Myndin sem nemendum var boðið að sjá nefnist á frummálinu Tout en haut du monde eða Efst í heimi eins og nemendur við frönskudeild HÍ sem sáu um þýðinguna kusu að nefna hana. Þetta var ágætis skemmtun og gaman að sjá frönskunemendur úr mörgum framhaldsskólum samankomna á sömu sýningu.
Svo var haldið heim á leið og gerðu FSu-ingar góðan róm að ferðinni sem yljaði, styrkti tengsl innan hópsins og var skemmtilegt uppbrot á frönskukennslu þessa napra föstudags í upphafi þorra.
Fleiri myndir úr ferðinni má finna á fésbókarsíðu skólans