MENNTAVERÐLAUN SUÐURLANDS AFHENT Í FSu
HEFÐ er fyrir því að menntaverðlaun Suðurlands séu afhent í hátíðarsal FSu sem kallast Gaulverjabær. Að þessu sinni hlutu þau fjölskyldusvið sveitarfélagsins Árborgar sem staðið hefur fyrir hagnýt og ókeypis íslenskunámskeið fyrir foreldra grunnskólabarna með fjöltyngdan og fjölmenningarlegan bakgrunn.
Dagskráin hófst á flottu tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Árnesinga en síðan flutti styrkþegi ársins 2022, Anna Selbmann fróðlegt erindi með myndum um hegðunarmynstur grindhvala og háhyrninga í kringum Vestmannaeyjar. Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands flutti ávarp ásamt forseta Íslands Höllu Tómasdóttur sem afhenti nýjum styrkþegum fjárupphæð til að efla frekari rannsóknir á viðfangsefni þeirra.
Anna Guðrún Þórðardóttir, doktorsnemi við Landbúnaðarháskóla Íslands, fékk styrk vegna Erfðalegrar aðlögunar byggs að krefjandi umhverfisaðstæðum og Clémence Daigre, doktorsnemi við Háskóla Íslands hlaut styrk til verkefnisins IceAq sem á að auka skilning á breytingum í vatnskerfum jökla.
Anton Kári Halldórsson formaður stjórnar SASS hélt hvatningarræðu og utan um þessa fínu dagskrá hélt skólameistar FSu, Soffía Sveinsdóttir. Að lokinni athöfn gæddu gestir sér á dýrðlegum brauðtertum og marengs í mötuneytisrými skólans sem stundum gengur undir heitinu Loftsalir. Til hamingju Suðurland : - )
jöz