MIKIL OG ÖFLUG ÞRÓUN Í NÁMSFRAMBOÐI FSu

OPIÐ HÚS fór fram í FSu þriðjudaginn 19. mars síðastliðinn en það er einkum sniðið að þeim sem vilja hefja nám við skólann eða kynna sér starfsemi hans. Fín mæting og fín virkni gesta sem dreifðu sér um húsakynni Odda og Hamars þar sem kennarar og námsráðgjafar upplýstu um námsleiðir, línur og brautir skólans.

Á degi Opna hússins kemur skýrt í ljós hversu fjölbreytt námsframboð er í FSu. Þróun þess frá stofnun skólans fyrir 42 árum er afdráttarlaus og skýr. Frá því að vera fjölbrautaskóli samsettur úr iðnskóla, framhaldsdeildum og öldungadeildum – yfir í að vera framhaldsskóli með margbreytilegt og fjölþætt námsframboð. Aðstaða til náms hefur líka tekið miklum breytingum á öllum þessum árum með byggingu Odda og síðar þegar húsnæði Hamars og Iðu var tekið í notkun. Fullyrða má að í skólameistaratíð Olgu Lísu Garðarsdóttur hefur þessari þróun verið fylgt markvisst eftir – enda er það alkunna að breytingar gerast ekki af sjálfu sér.

Í námsframboðinu er að finna fjölbreyttar íþróttaakademíur tengdar fimleikum, frjálsum íþróttum og knattleikjum handa, fóta og körfu og listnám sem hefur vaxið gríðarlega, verknám í margskonar gerðum járns og vélvirkjunar, rafmagns, timburs, hársnyrtingar, matvæla- og ferðagreina, FabLAB, hefðbundið bóknám til stúdentsprófs á opnum eða skilgreindum línum í náttúrufræði, félagsgreinum, tungumálum og viðskiptagreinum, sérnámsbraut fyrir fatlaða og nemendur með sértækar greiningar, hestalína, búfræðilína, og að lokum geysilega fjölbreytt og starfsmiðað garðyrkjunám að Reykjum í Ölfusi.

jöz.