Mín framtíð heppnaðist vel

Framhaldsskólakynningin Mín framtíð fór fram 13. – 15. mars í Laugardalshöllinni. Um 25 framhaldsskólar kynntu fjölbreytt nám samhliða íslandsmóti iðn- og verkgreina en keppt var í 19 greinum. Fyrstu tvo dagana var kynning fyrir grunnskóla og sóttu 9000 nemendur í 9. og 10. bekk sýninguna. Síðasta daginn var fjölskyldudagur og þá var opið fyrir almenning.

Fjölbrautaskóli Suðurlands tók þátt og kynnti allt það fjölbreytta nám sem skólinn býður upp á. Plöntur og blóm prýddu bása skólans enda hæg heimatökin. Gestir gátu meðal annars snúið lukkuhjóli með námsbrautum skólans og sáð basilíkufræjum í litla dollu og tekið með sér.

Sex nemendur skólans tóku þátt í íslandsmótinu að þessu sinni. Jóhann Már Guðjónsson keppti í húsasmíði og Sigurþór Árni Helgason var fulltrúi skólans í málmsuðu. Fjórir kepptu í skrúðgarðyrkju en FSu er eini skólinn á landsvísu sem býður upp á slíkt nám. Íslandsmóti í skrúðgarðyrkju eru gerð skil í annarri frétt hér á síðunni.

Allir nemendur skólans stóðu sig með mikilli prýði. Þau leystu sín verkefni af yfirvegun og fagmennsku innan um þúsundir gesta. Reynslan er það dýrmætasta sem nemendurnir taka með sér, bæði til að ljúka námi og ekki síður sem veganesti fyrir framtíðarstörf sinna iðngreina.

Mín framtíð lukkaðist með ágætum og var virkilega skemmtilegt að taka þátt í þessum líflega viðburði. Það er ekki síður lærdómsríkt fyrir starfsfólk að sjá hvað aðrir skólar bjóða upp á, einnig voru tækninýjungar kynntar og fleira skemmtilegt.