Minions (litlu gulu kallarnir) unnu Flóafár!
Liðið Minions (litlu gullu kallarnir úr teiknimyndinni Despicable Me) sigraði hið árvissa Flóafár sem fór fram fyrr í dag. Í Flóafári keppa lið undir stjórn nemenda í þrautum sem starfsmenn skólans útbúa. Keppt er um stig fyrir þrautarlausnir og að klára á góðum tíma. Skólinn allur er undirlagður, hver krókur og kimi notaður og mikill metnaður hjá öllum liðum að vera með flottan heildarsvip, útbúa sitt svæði, halda góðum liðsanda, semja skemmtiatriði og skipuleggja sig vel. Fimm lið tóku þátt að þessu sinni, hvert með sinn einstaka stíl, Minions, Soldiers, Rave, Skrímsli og Tomorrowland. Sem fyrr sagði sigraði lið Minions, en í 2. sæti varð liðið Soldiers. Veittar voru sérstakar viðurkenningar fyrir ákveðin atriði: Lið Minions sigraði í borðalagningu, viðurkenningar fyrir besta herópið, besta svæðið, bestu búningana og besta skemmtiatriðið fékk lið Soldiers.
Starfsmenn keppa svo innbyrðis um besta búninginn, en það voru þau Ægir Sigurðsson og Guðbjörg Helga Guðmundsdóttir sem fengu viðurkenningu fyrir hrikalega vampírubúninga.
Keppnin fór einstaklega vel fram, allir stóðu sig mjög vel og dagurinn góður endir á vel heppnaðri viku með kæti og gleði að leiðarljósi eins og FSu-ingum er tamt.
Myndirnar tóku Örn Óskarsson og Ægir Pétur Ellertsson, en fleiri myndir af FLóafári 2015 má sjá á fésbókarsíðu skólans.