Moodle í stað Angel
23.08.2010
Meðal nýjunga á þessu hausti er að nú hættir skólinn að nota kennsluumhverfið Angel og tekur þess í stað upp annað kerfi sem nefnist Moodle. Er þetta einkum gert í sparnaðarskyni. Allnokkrir kennarar eru nú þegar hagvanir í nýja kerfinu þar sem þeir tóku það upp á liðnu skólaári en aðrir eru nú að stíga sín fyrstu skref í Moodlebrautinni. Moodlekerfið er um margt hentugra en Angel, t.d. einfaldara að mörgu leyti og að hluta til á íslensku þrátt fyrir nafnið (Múðlan og Múkkinn eru tillögur sem heyrst hafa!). Reynslan frá síðasta skólaári sýnir líka að nemendur voru fljótir að tileinka sér nýja kerfið. Kristín Runólfsdóttir hefur haft veg og vanda af því að leiða kennara skólans um krákustíga hins nýja kerfis.