Náms- og starfsráðgjafar frá 7 löndum í heimsókn
12.04.2012
Þann 28.mars kom hópur náms-og starfsráðgjafa á vegum Akademia í heimsókn í FSu. Akademia er mannaskiptaverkefni liðlega 20 landa sem fjármagnað er með styrkjum frá Leonardó da Vinci áætlun Evrópusambandsins. Markmiðið er að auðvelda náms- og starfsráðgjöfum að fara í stuttar námsferðir til annarra Evrópulanda til að fræðast þar um skipulagningu menntakerfis eða fyrirkomulag á vinnumarkaði. Heimsóknirnar eru skipulagðar þannig að hvert þátttökuland skipuleggur námskeið sem að öllu jöfnu stendur yfir í viku til tíu daga. Þar er gefið yfirlit yfir samfélag og opinbert kerfi viðkomandi lands og farið er í heimsóknir til stofnana og fyrirtækja þar sem ráðgjafar starfa. Einnig eru oft tekin fyrir ákveðin þemu sem eru mikilvæg í faglegri umræðu um ráðgjöf. Gestirnir sem komu í FSu voru 12 talsins frá 7 löndum ásamt Dóru Stefánsdóttir verkefnisstjóra Euroguidance á Íslandi. Agnes og Álfhildur, náms-og starfsráðgjafar tóku á móti hópnum og kynntu honum FSu og starf náms-og starfsráðgjafa í skólanum. Í lokin var skólinn skoðaður og snæddur hádegismatur á Bollastöðum. Á myndinni sést hópurinn ásamt þeim Agnesi og Álfhildi.