Námsferð til Joniskis í Litháen
Um miðjan októbermánuð fóru 6 garðyrkjunemar ásamt kennara í námsferð til Litháen á vegum Nordplus verkefnisins Nordic horticulture. Verkefnið er samstarf 5 garðyrkjuskóla í Skandinavíu og Eistrasaltslöndunum sem hefur það markmið að auka þekkingu og færni þátttakenda ásamt því að efla samstarf kennara þessara skóla. Verkefni námsferðarinnar til Joniskis í Litháen var að fræðast um staðargróður, samplantanir, sameldi, ræktun vínberja og mótun runna og trjáa í uppeldi. Einnig er mikilvægur hluti verkefna af þessu tagi að kynnast menningu þess lands sem er sótt heim og styrkja félagsleg bönd nemenda frá öllum þátttökulöndum.
Fyrsta daginn var byrjað á að kynnast mótttökuskólanum, Joniškio žemės ūkio mokykla og fékk hópurinn að skoða alla króka og kima skólans og kynnast því sem þar er kennt. Seinnipart dags var haldið í rútuferð að skoða Krossahæð (Hill of crosses) sem er í nágrenni bæjarins. Það er staður sem stendur mörgum Liháum nærri af trúarlegum ástæðum. Þar getur fólk minnst ættingja og vina og komið fyrir krossi á hæðinni.
Annar og þriðji dagur fóru í skoðunarferðir ýmiskonar. Fyrst var farið í skoðunarferð til þriðju stærstu borgar Litháen, Klaipeda og nánasta nágrennis. Tilgangur ferðarinn var aðallega að skoða grasagarðinn í borginni sem er rekinn af háskólanum í Klaipeda en einnig var skoðað fiskeldi og heimsótt býli þar sem ábúendur eru að gera tilraunir með sameldi. Seinni daginn fræddist hópurinn um kornrækt í héraðinu og kornsamlag bænda og helstu tækifæri og áskoranir í þeim geira. Loks var haldið í heimsókn á litla garðyrkjustöð sem framleiðir ýmiskonar grænmeti og ávexti og vegur þar mest ræktun á vínberjum. Það var áhugavert að sjá hversu mikið er hægt að gera í takmarkaðri aðstöðu og geta þátttakendur vitnað um að vínberin brögðuðust mjög vel.
Síðustu tveir dagar námsferðarinnar fóru í verklegar æfingar. Fyrri daginn var útbúið svokallað blómateppi og slegið upp í keppni á milli skóla. Hvert land átti að vinna með haustliti og útbúa blómateppi sem tengdist landi sínu og þjóð. Íslenski hópurinn tengdi verkefnið sitt íslensku lopapeysunni og skreytti með táknum fyrir snjó, mosa, hraun, og fleira sem finna má í íslenskri náttúru. Keppnin var jöfn og en íslenski hópurinn fór heim með viðurkenningarskjal fyrir fyrsta sæti.
Seinni daginn var unnið í tveggja til þriggja manna hópum í því að útbúa samplantanir úr þykkböðungum og kaktusum auk þess sem notaðir voru steinar og ýmiskonar skraut með. Seinna verkefni dagsins var mótun og formklipping á sígrænum runnum fyrir sölu. Í Litháen og víðar í Evrópu tíðkast að móta runna í allskyns form og getur mótun af þessu tagi í uppeldi sígrænna runna aukið mjög verðmæti þeirra í sölu.
Á föstudagskvöldið var svo komið að kveðjustund og héldu hóparnir hver í sína áttina heim á laugardag. Ferðin var lærdómsrík og skemmtileg enda margt áhugavert á sjá í Litháen. Hópurinn kemur tilbaka fróðari um land og þjóð og með nýja þekkingu í farteskinu.