Nemendur á ferð og flugi í hreyfingarviku
Um miðjan október var ein vika tileinkuð hreyfingu sérstaklega og voru kennarar þá markvisst með æfingar og kennslu þar sem einhverskonar hreyfing kom við sögu. Meðal þess sem gert var má nefna ratleik hjá stærðfræðikennurum þar sem nemendur hlupu um allt hús og leituðu að X-inu. Í nokkrum hópum í ensku unnu nemendur verkefni þar sem þeir gerðu myndasögu um hreyfingu og einnig fréttist af mörgum nemendum á ferð og flugi vegna hreyfitengdra verkefna.
Á myndinni hér til hliðar má sjá nemendur í líffæra- og lífeðlisfræði leysa boltaþraut, en þrautin fólst í því að koma 30 boltum frá einu horni til annars á sem skemmstum tíma.
Á myndinni hér til hliðar má sjá nemendur í Textíldeild, THL103 Fatahönnun og THL 143 Híbýlahönnun sem fóru í svonefnt Búðahlaup í Hreyfingarviku. Var ein kennslustund tekin í að fylgja merktu Selfosskorti í kapphlaupi um að ná að kynna sér eins margar fata- og textíltengdar verslanir á svæðinu og hægt væri að ná á 75 mínútum. Þetta tókst afar vel og má segja að hér í heimabyggð leynast ótrúlega mörg spennandi dæmi um íslenska fatahönnun, frumleg, flott og freistandi klæði, nytjahluti, efni, liti og form.