Nú þarf að sýna spilin
20.03.2010
Föstudaginn 12. mars sóttu Ægir Pétur Ellertsson formaður KFSu og Þórey Hilmarsdóttir trúnaðarmaður fulltrúafund Félags framhaldsskólakennara. Umræðan á fundinum litaðist mjög af innleiðingu nýrra laga um framhaldsskólann. Almennt voru fundarmenn sammála um gagnsemi þess að taka námgreinar sínar og kennsluna í heild til endurskoðunar. Hins vegar eru miklar efasemdir um framhaldið. Voru menn almennt þeirrar skoðunar að við værum komin að þeim tímapunkti að menntamálaráðuneytið þurfi að fara að sýna á spilin: Hvernig á að standa að framhaldinu? Það þarf að varða leiðina sem framundan er, bæði varðandi næstu skref sem og tímasetningar. Fram kom það sjónarmið að skynsamlegt væri að fylgjast með tilraunaverkefnum Kvennó og FMos og sjá hvernig það þróunarstarf gengi, áður en aðrir framhaldsskólar helltu sér út í breytingar.
Í lok fundarins var borin fram ályktun sem var samþykkt samhljóða. Niðurlag þeirrar ályktunar var svohljóðandi: Endurskoða þarf innleiðingu framhaldsskólalaganna vegna gjörbreyttra aðstæðna og marka framkvæmdastefnu til næstu ára. Fundurinn krefst þess að menntamálaráðherra geri kennurum og samtökum þeirra tafarlaust skýra grein fyrir forgangsröðun í starfi skólanna og áætlunum um framkvæmd laganna.