Ný matvæla- og ferðaþjónustubraut fer vel af stað
Í haust var byrjað að kenna nýja námsbraut við FSu, grunnnám ferða- og matvælagreina, GFM. Námið er undirbúningur fyrir nemendur sem ætla í áframhaldandi nám í matvæla- eða ferðagreinum (bakari, matreiðsla (kokkur), framreiðsla (þjónn), kjötiðn, ferðamálafræði).
Umfang námsins er tvær annir, helstu námsgreinar eru: verkleg færniþjálfun ferða- og matvælagreina, fag- og örverufræði matvælagreina, verkleg þjálfun á vinnustað, öryggismál og skyndihjálp, lýðheilsufræði og þjónustusamskipti.
Grunnnámið er unnið í samvinnu Fjölbrautaskóla Suðurlands, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Menntaskólans í Kópavogi og Verkmenntaskólans á Akureyri.
Guðríður Egilsdóttir fagstjóri matvælagreina við FSu segir að námið fari vel af stað, mikill velvilji sé hjá fyrirtækjum í matvælagreinum á Suðurlandi, má þar nefna að Sláturfélag Suðurlands hefur gefið brautinni kokkajakka á alla nemendur brautarinnar. Nemendur ásamt kennara hafa farið í vettvangsferðir í matvælafyrirtæki á svæðinu í haust, má þar nefna Hótel Selfoss, Fiskbúð Suðurlands Flúðasveppi, Jörva, Egni, Friðheima og Efstadal,
Í verklega áfanga brautarinnar þurfa nemendur að fara út á vinnustaði þar sem þau fá að kynnast af eigin raun hvernig störfin fara fram.
Þá tók Ástfríður M. Sigurðardóttir fagsviðsstjóra hjá Matvælastofnun á móti nemendum GFM og fór yfir þá fjölbreyttu starfsemi sem fer þar fram. Nemendur hittu einnig Elsu Ingjaldsdóttur framkvæmdarstjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, en Elsa fræddi nemendur um stærsta og fjölbreyttasta matvælasvæði Íslands og hlutverk heilbrigðiseftirlits á svæðinu.
Fleiri myndir úr náminu má sjá á fésbókarsíðu skólans.