NÝNEMADAGUR OG UPPHAF SKÓLAHALDS
Kennsla hófst í FSu 18. ágúst síðastliðinn en dagana á undan komu kennarar til undirbúnings. Skrifstofa skólans opnaði gáttir sínar í byrjun vikunnar þar á undan og stjórnendur komu til starfa. Skólameistari Olga Lísa Garðarsdóttir bauð nýnema velkomna á sal skólans (Gaulverjabæ) á sérstökum nýnemadegi þann 17. og lagði áherslu á að allir í skólasamfélaginu ynnu saman að sameiginlegu og menntandi markmiði. Umhverfismál og dagleg umgengni og virðing fyrir umhverfi okkar var henni ofarlega í huga enda eitt helsta viðfangsefni samtímans.
Að þessu sinni hefja 246 nýir nemendur nám við skólann. Tekið er á móti þeim með viðhöfn og skipulögð dagskrá sett af stað sem haldið er utan um af BRAGA kennurum skólans sem eru umsjónarkennarar fyrsta árs nema. Um stöðvavinnu er að ræða þar sem nemendur eru leiddir inn í daglegt starf og skipulag námsins. Á einum stað er lesið í gögn þar sem INNA er kynnt en hún er miðlægur gagnagrunnur allra framhaldsskóla landsins og rafrænt kennsluumhverfi. Bókasafn og bókakostur skólans er kynntur og skrifstofan heimsótt. Námsráðgjafar bjóða nemendur velkomna með ráð og dáð, ítarleg tölvukynning fer fram og stjórn nemendafélagsins segir frá starfinu framundan. Gengið er um skólahúsnæðið þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja. Að lokum fá allir næringu í kroppinn og tækifæri til að hittast og spjalla.
Nýnemadagur er alltaf hátíðlegur í FSu og til fyrirmyndar hvernig er staðið að honum. Á meðfylgjandi mynd má sjá skólameistara ávarpa nemendur í Gaulverjabæ.
jöz.