Olweus kemur
Nýlega fóru Agnes Ósk Snorradóttir og Þórunn Jóna Hauksdóttir á tveggja daga námskeið um Olweusaráætlun gegn einelti. Fræðsla var í höndum Þorláks H. Helgasonar framkvæmdastjóra Olweusar á Íslandi og Sigrúnar Ásmundsdóttur verkefnisstjóra. Þetta var fyrsti «hittingur» af sjö næsta árið en áætlað er að innleiðingu Olweusar í FSu sé lokið um áramót 2011.
Olweusaráætlunin er útbreidd í grunnskólum landsins en Fjölbrautaskóli Suðurlands er fyrsti framhaldsskólinn sem ætlar að taka hana upp. Þær stöllur sjá fram á frumkvöðlastarf í F.Su þar sem áætlunin verður aðlöguð áfangakerfi framhaldsskóla. Þær leggja áherslu á að innleiðing og aðlögun verði í samráði alls starfsfólks F.Su, en það býr yfir mikilli reynslu og þekkingu sem nýtist í innleiðingarferlinu.