Opinn listaháskóli
Listaháskóli Íslands bauð nýverið kennurum og umsjónaraðilum listnámsbrauta framhaldsskóla og öllum sem sjá um undirbúningsnám í listum og hönnun til kynningar. Elísabet Helga Harðardóttir, myndlistarkennari og Helga Jóhannesdóttir, textílkennari fóru á kynninguna. Þær fengu að sjá nýtt húsnæði hönnunar-og arkitektúrdeildar í Þverholti þar sem þær hittu fyrrum nemanda í FSu og síðan húsnæði myndlistardeildar þar sem einnig má er að finna sameiginleg verkstæði deildanna tveggja að Laugarnesvegi 91.Kennarar Listaháskólans sögðu frá náminu í deildunum og fyrirspurnum var svarað. Þarna var góður vettvangur til umræðna og skoðanaskipta við listnámskennara úr öðrum skólum.
Föstudaginn 31. október er svo opið hús í Listaháskólanum fyrir gesti og gangandi og eru allir hvattir til að nota tækifærið og kynna sér húsakynni og fyrirkomulag listnáms á háskólastigi. Verið er að safna fólki í hópferð frá FSu, skráningarblöð má finna víðsvegar á veggjum skólans. Einnig er hægt að hafa samband við Elísabetu Harðardóttur, myndlistarkennara.