Óvænt heimsókn
30.08.2011
Óvænta gesti bar að garði í skólanum í vikunni þegar þrír háskólanemar, þeir Alexander Sahm, Justus Pfeifer og Simon Ebener Holscher frá Düsseldorf ákváðu að koma í heimsókn. Þeir hafa verið að ferðast um landið undanfarna daga. Nú síðast gengu þeir Laugaveginn inn í Þórsmörk. Þeim fannst hins vegar of mikið að ganga yfir Fimmvörðuháls og kusu heldur að ganga upp á þriðju hæð og líta inn í tíma í Ensku 103 og Þýsku 103 hjá Ægi Pétri Ellertssyni. Nemendur í Þýsku 103 nýttu sér tækifærið til að æfa nýfengna þekkingu sína á þýsku til að spyrja þá félaga spjörunum úr og svara spurningum þeirra. Eins báru menn saman stafrófið í báðum málum. Þeir félagar stóðu sig með prýði og stilltu sér upp til myndatöku í lok tímans.