Paprikutilraunir á Reykjum fara vel af stað
Starfsmenn Garðyrkjuskólans/FSu á Reykjum hafa í haust unnið að uppsetningu athugunar í tilraunahúsi garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi þar sem leitast er við að fá upplýsingar um hentugt lýsingarmagn í vetrarræktun papriku í íslenskum gróðurhúsum.
Paprika er tegund sem ræktendur hafa lagt stund á lengi en skort hefur upplýsingar um hvernig standa má að ræktuninni allt árið með nýtingu raflýsingar. Umrætt tilraunaverkefni er sett upp á þann hátt að borin er saman ræktun undir mismunandi ljósgjöfum þar sem bæði er unnið með ólíkan ljósstyrk og lampagerðir (HPS-lampar og LED-lampar).
Að tilrauninni koma nokkrir aðilar, Rannsóknarmiðstöð landbúnaðarins (RML), Sölufélag garðyrkjumanna (SFG) og Búgreinadeild garðyrkjubænda hjá Bændasamtökunum. Íslenskir paprikuræktendur áttu frumkvæði að verkefninu.
Í síðustu viku komu í heimsókn tveir erlendir ylræktarráðunautar til að meta stöðu verkefnisins, þau Fríða Helgadóttir frá danska ráðgjafafyrirtækinu HortiAdvice og hollenski ylræktarráðunauturinn Chris Verberne ásamt Helga Jóhannessyni frá RML en þau höfðu öll hönd í bagga með skipulag verkefnisins.
Það var samdóma álit sérfræðinganna að vel væri staðið að framkvæmd tilraunanna sem nú hafa þegar sýnt að kröftug vaxtarlýsing getur skilað góðum vexti í ungplöntum, plönturnar eru kröftugar og aldinsetning er ágæt. Stutt er í fyrstu uppskeru.
Elías Óskarsson umsjónarmaður gróðurhúsa og Börkur Halldór Bl. Hrafnkelsson, garðyrkjufræðingur hafa langa reynslu af tilraunastarfi á Reykjum og fengu þeir sérstakt hrós fyrir vandaða framkvæmd verkefnisins.
Flestir íslenskir paprikuræktendur hittust þennan dag til skrafs og ráðagerða á Reykjum. Gert er ráð fyrir framhaldi á þessu verkefni því hér er um að ræða mikið hagsmunamál, að auka verulega hlut innlendrar papriku á markaði allt árið um kring.