Rannsókn á lesblindu

Þátttakendur vantar í sjónskynjunartilraun. Tilraunin er hluti af rannsókn við Háskóla Íslands: „Hlutverk æðri sjónskynjunar, sjónhreyfiferla og sjónrænnar athygli í læsi og torlæsi“
 
Þú þarft að vera:
• 18-35 ára
• Með eðlilega eða leiðrétta sjón
 
Þú mátt vera:
• Lesblind(ur)
• Ekki lesblind(ur)
 
Gjafabréf upp á 10.000 kr verður veitt í verðlaun fyrir heppinn þátttakanda.
 
-------------------------------------------------------------------------------------------
 
Ábyrgðarmaður rannsóknar: Dr. Heiða María Sigurðardóttir
Rannsóknin er gerð í nánu samstarfi við rannsóknarhóp dr. Árna Kristjánssonar 
 
-------------------------------------------------------------------------------------------
 
 
 
Nánar um rannsóknina:
 
Rannsóknateymi við Sálfræðideild Háskóla Íslands vinnur nú að rannsókn á áhrifum sjónrænna þátta á læsi og lesblindu. Hópurinn leitar að þátttakendum fyrir rannsóknina.
 
Flest fullorðið fólk les nokkuð hratt og án mikillar umhugsunar. Um einn af hverjum tíu nær hins vegar aldrei slíkri flugfærni þrátt fyrir gott aðgengi að lestrarkennslu og námsefni og allstór hluti þessa fólks glímir við mikla og hamlandi lesörðugleika. Slíkt hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér þar sem lestrarfærni er grundvöllur að þátttöku í nútímasamfélagi.
 
Nokkur sátt ríkir um það innan vísindasamfélagsins að lesblinda eða leshömlun sé röskun á tungumáli, þá sérstaklega hæfileikanum til þess að greina í sundur hljóðin í mæltu máli. Ýmislegt bendir aftur á móti til þess að sjónrænir þættir komi einnig við sögu. VisDys-hópurinn er nýtt rannsóknarteymi við Sálfræðideild Háskóla Íslands sem hyggst kanna hlutverk æðri sjónskynjunar, sjónhreyfiferla og sjónrænnar athygli í læsi og torlæsi.
 
„Ritmál varð ekki til fyrr en fyrir nokkrum þúsundum ára,“ segir Heiða María Sigurðardóttir, nýdoktor við Sálfræðideild, sem leiðir hópinn ásamt Árna Kristjánssyni, dósent við Sálfræðideild. „Það er þess vegna ómögulegt að sérstakur hæfileiki til þess að lesa hafi þróast með mannfólki. Til þess að læra að lesa þurfum við í staðinn væntanlega að endurnýta og breyta þeim heilasvæðum og þeim taugaferlum sem fyrir eru og ritað mál þarf án efa að fara í gegnum alls konar úrvinnslu í sjónkerfinu áður en við getum loks skilið það sem stendur á blaðinu eða tölvuskjánum okkar. Þetta hlutverk sjónrænnar úrvinnslu ætlum við að kanna,“ segir Heiða.
 
 
Um aðstandendur rannsóknarinnar
Heiða María Sigurðardóttir er doktor í taugavísindum frá Brown University í Bandaríkjunum. Þar sérhæfði hún sig í rannsóknum á æðri sjónskynjun, svo sem formskynjun, hlutaskynjun og sjónrænni athygli, og áhrifum einstaklingsreynslu á slík skynferli. Heiða María er nú nýdoktor við Sálfræðideild Háskóla Íslands.
 
Árni Kristjánsson er doktor frá Sálfræðideild Harvard University í Bandaríkjunum. Hann stundaði rannsóknir við University College London og er nú dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Árni er einn afkastamesti vísindamaður á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og hefur gefið út ótal vísindagreinar um sjónræna athygli og sjónskynjun almennt.