Rausnarlegar gjafir til skólans
Nýlega bárust Garðyrkjuskólanum á Reykjum veglegar gjafir frá Sæmundi Guðmundssyni, Eplabónda á Hellu. Sæmundur hefur um árabil verið einn ötulasti ræktandi ávaxtatrjáa á Íslandi. Nemendur Garðyrkjuskólans hafa ítrekað heimsótt Sæmund og fengið að skoða aldingarðinn við heimili hans á Hellu. Það er ótrúleg upplifun að ganga á milli ávaxtatrjánna og sjá hvernig þau þrífast hér á okkar erfiða ræktunarlandi. Nú á haustdögum gaf Sæmundur skólanum um fimmtíu eplatré sem eru góður grunnur að aldintrjáaræktun skólans í framtíðinni. Nemendur gróðursettu trén í stóra potta í verklegri æfingu í áfanga um ávaxtarækt nú á haustönninni. Búið er að koma þeim vel fyrir í garðskála skólans þar sem þau munu gleðja heimafólk og gesti í framtíðinni.
Í sinni ræktunarvegferð hefur Sæmundur safnað dágóðu bókasafni um áhugamál sitt og nú í haust gaf hann skólanum megnið af bókasafninu sínu. Um er að ræða gríðarlegt magn fræðibóka um ávaxtarækt, sérstaklega ræktun eplatrjáa og er safnið einstakt í sinni röð. Núna er unnið við að gera þessar bækur aðgengilegar fyrir starfsfólk, nemendur og aðra áhugasama.
Kunnum við Sæmundi bestu þakkir fyrir sýndan vinarhug við skólann.Við hlökkum til að takast á við það verkefni að finna og rækta þá ávexti sem best henta á Íslandi og halda þannig áfram því tilraunastarfi sem Sæmundur hefur unnið að undanfarna áratugi.