Reise, Reise...
Eins og frá var sagt hér fyrr á önninni þá kom þýska sendiherrafrúin í heimsókn hingað á skólann, hún Gabriele Sausen, til að kynnast störfum þýskudeildarinnar og heimsótti hún meðal annars ÞÝS-303,403 og 503. Síðastliðinn fimmtudag fóru nemendur úr tveimur þýskuáföngum úr skólanum, ÞÝS-403 og ÞÝS-503 með kennara sínum, honum Inga S. Ingasyni, til Reykjavíkur að heimsækja sendiherrann og frú hans til að kynnast störfum þýska sendiráðsins. Fyrst var förinni heitið í sendiráðið þar sem sendiherrann, Herrmann Sausen, tók á móti hópnum. Skýrði hann fyrir nemendunum hin dæmigerðu störf sendiráða og þeirra embættismanna. Síðan var hann kvaddur og fór hópurinn þá á heimili sendiherrahjónanna á Túngötu. Þar biðu þeirra veitingar og myndin Lila, Lila með Íslandsvininum Daniel Brühl í aðalhlutverki og var það samróma gagnrýni hópsins að myndin hefði verið mjög góð! En ekki var það bara myndin sem var talin mjög góð heldur fékk hópurinn líka þá sömu gagnrýni frá rútubílstjóra, kennara og opinberum embættismönnum.