Ríflega þúsund hausar
10.01.2010
Kennsla á vorönn 2010 hófst fimmtudaginn 7. janúar. Skráðir nemendur í dagskóla eru 953 við upphaf annarinnar. Þar að auki eru allnokkrir grunnskólanemar í fjarnámi, og nemendur á Litla-Hrauni um 30, þannig að samtals hefja ríflega þúsund hausar nám í skólanum á þessari önn. Þá má geta þess að 24 nemendur sem voru í 10. bekk fyrir áramót koma nú alfarið yfir í FSu, þar af 21 úr Vallaskóla.
Á vorönn 2010 verður unnið áfram af kappi við innleiðingu nýrra laga um framhaldsskóla. Unnið verður úr hugmyndum um Draumaskólann" og einnig verður lögð sérstök áhersla á gerð lokahæfnimarkmiða námsgreina og skipulagningu nýrra námsbrauta. Fundasókn verður aukin í því sambandi, sbr. nýtt eyktakerfi. Hafin verður endurskoðun á sjálfsmatskerfi skólans og byrjað á annarri umferð þar sem lykilþættir kerfisins (Um skólann, námið, starfsfólk, þjónusta, samstarf og saga og þróun) verða skoðaðir. Áfram verður unnið að úrbótum tengdum sjálfsmatskerfi. Baráttan gegn einelti verður efld og unnið samkvæmt einkunnarorðunum skólinn í okkar höndum", að allir starfsmenn séu samábyrgir fyrir skólastarfinu og vellíðan nemenda og starfsmanna.