GUNNAR HELGASON Í HEIMSÓKN

Áfangi í barnabókmenntum er kenndur í FSu á þessari önn – undir íslensku á 3. þrepi - og var áhugi nemenda mikill. Fjórir hópar fylltir sem þýðir að um það bil 110 nemendur lesa og greina barnabækur þessa önnina. Auk valinna bóka eru fræðigreinar lesnar sem varpa ljósi á sögu íslenskra barnabóka, sérstaka frásagnartækni þeirra sem sýnir að vandaðar barnabækur er bæði fyrir börn og fullorðna. Myndlýsingar í barnabókum eru greindar og samband þeirra við textann skoðað og ýmsum siðferðisspurningum velt upp sem leynst geta á milli línanna. Kenningar Jean Piaget um vitsmunaþroska barna eru rýndar og mátaðar við bókmenntirnar. Kennarar áfangans eru Guðbjörg Grímsdóttir, Jón Özur Snorrason og Stefán Hannesson.

Auk þessa eru einstakir höfundar skoðaðir og ferill þeirra og í tilefni af því kemur rithöfundurinn Gunnar Helgason í heimsókn í skólann fimmtudaginn 10. október næstkomandi og heldur fyrirlestur og uppistand á sal skólans klukkan 12.30. Sannarlega sambland af fróðleik og fjöri.

jöz.