RÚSÍNUSPÝTINGUR OG STÍGVÉLAKAST

Árleg nýnemaferð FSu var farin þriðjudaginn 10. september síðastliðinn. Það var um 250 manna hópur sem lagði leið sína í félagsheimilið Félagslund í Flóahreppi í hvínandi roki og kulda með gleðina að vopni og yl í hjarta. Í nýnemaferðinni er markmiðið að hrista nýja nemendur enn frekar saman með óhefðbundnum skóladegi í fjölbreyttri þrautakeppni sem kennarar og nemendaráð skólans sjá um. Þar reynir sannarlega á fullt litróf mismunandi styrkleika allt frá svokölluðum rúsíníuspýtingi yfir í spurningakeppni að ótöldu öllu þar á milli. Að auki fer fram kosning á fulltrúa nýnema í nemendaráð á einni stöðinni.

Þrautastöðvar voru staðsettar bæði innan og utan húss og hver krókur og kimi nýttur til hins ítrasta. Nemendur, sem skipt var niður í ellefu lið, rúlluðu á milli stöðva undir styrkri stjórn liðsstjóra sem kosnir voru af nemendum sjálfum. Allt gekk eins og best verður á kosið, nemendur til fyrirmyndar í hvívetna, tóku þátt í hverri áskoruninni á fætur annarri og flest létu napurt veðrið ekki hafa áhrif á stemminguna enda klædd eftir veðri.

Að þrautakeppni lokinni var boðið upp á nýgrillaðar pulsur með öllu en grillstjórar höfðu komið upp fyrirtaksaðstöðu hlémegin Félagslundar, hvar daufir sólargeislar léku að auki um hópinn. Að síðustu var öllum smalað inn í sal þar sem krýndir voru sigurvegarar í liðakeppninni og úrslit úr kosningu fulltrúa nýnema voru kunngjörð. Það má til gamans geta þess að sá aðili er hreppir það hnoss gengur almennt undir titlinum BUSAKRÚTT.

Það má sannarlega segja að þetta hafi verið gulur dagur í hvívetna en 10. september er alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga og hefur guli liturinn verið notaður til að minna á geðheilbrigði og sjálfsvígsforvarnir og voru mörg í gula skólanum okkar gulklædd í gulri veðurviðvörun. Svo lét sú gula einnig sjá sig.

ár / jöz