Samfella í námi milli grunn- og framhaldsskóla
Síðastliðna tvo föstudaga hélt Þórunn Jóna Hauksdóttir erindi um samfellu í námi milli grunn- og framhaldsskóla, annars vegar á Menntakviku Menntavísindasviðs HÍ og hins vegar á þingi Kennarafélags Suðurlands. Erindin byggðu á MPA rannsókn Þórunnar Jónu en hún er eina sinnar tegundar hér á landi. Fór hún yfir hugtakið "bráðgerir nemendur" og hröðun sem úrræði. Meginhluti erindanna fjallaði um námsframvindu, námsárangur, líðan og viðhorf sunnlenskra grunnskólanemenda sem hófu nám í FSu áður en 10 ára grunnskólagöngu var lokið - á árabilinu 2007-2010.
Áhugi hjá sunnlenskum kennurum og stjórnendum var mikill, ekki síst fyrir þær sakir að fjallað var um þeirra nemendur. Áhugi menntapólitískra yfirvalda hefur líka verið nokkur þar sem þau hafa kallað eftir slíkri rannsókn í langan tíma, hefur Þórunn Jóna meðal annars verið kölluð til menntamálanefndar Alþingis til að gera grein fyrir niðurstöðum.