Samningur við Landsvirkjun
Fjölbrautaskóli Suðurlands og Landsvirkjun hafa endurnýjað samstarfssamning sín í milli. Samningnum er ætlað að styðja við verklegt iðnnám rafvirkja- og vélvirkjabrauta við FSu. Einnig er markmiðið að kynna starfsemi fyrirtækisins fyrir nemendum skólans. Landsvirkjun hefur tekið að sér iðnnema frá FSu í vinnustaðanám með ferilbók síðustu ár og hefur samstarfið verið farsælt. Nemendur fá innsýn í starfsemi orkuvera og kynnast fyrirtækinu, störfum þar og öryggismenningu. Þeir fá tækifæri til að fást við fjölbreytt verkefni sem án efa víkka sýn þeirra á fagið og hvaða möguleikar standa þeim til boða að námi loknu. Að auki hefur Landsvirkjun boðið iðnnemum í heimsókn í aflstöðvar sínar og á orkusýningu í Soginu. Samningur sem þessi er hluti af samfélagsstefnu Landsvirkjunar sem miðar að því að nærsamfélag aflstöðva njóti ávinnings af starfsemi fyrirtækisins.
Heimsóknir í fyrirtæki eru ómetanlegur hluti iðnnáms, þar sem nemendur kynnast alls konar verkefnum sem þeim standa til boða að námi loknu.
Fulltrúar Landsvirkjunar heimsóttu skólann í byrjun febrúar þar sem þau kynntu fyrirkomulag vinnustaðanáms hjá þeim fyrir nemendum á rafvirkja- og vélvirkjabrautum. Kynningin var vel sótt og góður rómur gerður að henni.
ssv/jsb