SAMSTARF SEM ER MIKILS VIRÐI
Eins og undanfarin ár er Trédeild FSu í samstarfi við BYKO um smíði sumarhúsa í húsasmíðaáföngunum HÚSA3HU09 og HÚSA3ÞÚ09. Þetta samstarf er mikils virði fyrir trédeildina og ómetanlegt að geta leyst raunhæf verkefni og þurfa ekki að bera fjárhagslega ábyrgð á þeim. „Þetta samstarf hefur gengið vel og við munum leggja okkur fram um að svo verði áfram” segir Lárus Gestsson fagstjóri og kennari í trédeild.
„Á þessu skólaári erum við að byggja tvö 20m2 hús. Í þeim er gert ráð fyrir salerni með sturtu, lítilli eldhúsinnréttingu, svefnrými og lítilli stofu. Við erum að vonast til að geta klárað að klæða þau að innan í lok annar. Það er æskileg kennslufræðileg niðurstaða og rímar við áfangalýsingar sem tilheyra þessum áföngum. Með því að klára að klæða húsin skapast einnig góð viðbót fyrir rafvirkjadeild FSu að bæta raunhæfum verkefnum í sína kennslu með því að leggja nánast fullbúna raflögn í húsin. Þessi samvinna raf- og trédeildar er mjög mikilvægur þáttur í kennslu beggja deilda” segir Lárus ennfremur.
10. mars síðastliðinn var svo haldið reisugildi sem hefð er fyrir á hverju skólaári og bætir Lárus við að „stundum er gildið ekki alveg á réttum tíma vegna ýmissa ástæðna en rétti tíminn er þegar síðasta sperra hefur verið reist og fáni dreginn að húni. Í þetta sinn erum við í seinna lagi og fáni dregin að húni innandyra. Gunnar og Grétar frá Byko á Selfossi mættu með hlaðborð í mat og drykk fyrir nemendur, kennara og stjórnendur. Gunnar og Grétar létu ekki þar við sitja heldur færðu okkur góðar gjafir í verkfærum frá Byko. Trédeild fékk að gjöf 12v vélasett í tösku sem inniheldur 6 vélar af ýmsu tagi og rafdeild fékk tvær 12v borvélar í tösku.”
Lárus Gestsson vill að lokum koma á framfæri kærum þökkum til allra sem komu að verkinu með von um áframhaldandi gott samstarf.
lg / jöz