Samstarfssamningur Fjölbrautaskóla Suðurlands og Landbúnaðarháskóla Íslands
Fimmtudaginn 13. ágúst var undirritaður samningur á milli Fjölbrautaskóla Suðurlands og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) um sameiginlega náttúrufræðibraut/búfræðisvið til stúdentsprófs. Nemendur taka fyrstu tvö árin við FSu og geta síðan hafið nám við LbhÍ í búfræði eða á garðyrkjubrautum skólans. Nemendur útskrifast síðan með sameiginlega gráðu sem stúdent og búfræðingur eða garðyrkjufræðingur.
Allt að fimm nemendur árlega sem innritast á brautina eiga vísa skólavist í búfræði annars vegar og garðyrkju hins vegar hjá LbhÍ eftir að hafa lokið þeim hluta námsins sem fram fer við FSu.
“Skólinn er staðsettur í einu stæsta landbúnaðarhéraði landsins og því er þessi samningur og námsfyrirkomulag afar heppilegt fyrir nemendur okkar sem hyggjast starfa við landbúnað, hvort sem um er að ræða búskap eða garðyrkju. Við erum afar ánægð með að geta boðið þetta námsúrræði í FSu og hlökkum til að sjá viðbrögð samfélagsins á Suðurlandi við þessum möguleika,” segir Olga Lísa Garðarsdóttir skólameistari FSu.
“Það er afar ánægjulegt að hefja formlegt samstarf við FSu um sameiginlega braut til stúdentsprófs og búfræðings/garðyrkjufræðings. Tækifæri innan landbúnaðar eru mikil og víða þörf á nýliðun. Það er því einkar gleðilegt að umsóknir í starfsmenntanám Landbúnaðarskólans hafa aldrei verið fleiri en í ár”, sagði Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor LbhÍ við undirskrift samningsins.