Samtök iðnaðarins og Forseti Íslands í heimsókn
Þriðjudaginn 1. nóvember kom forseti Íslands og fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins (SI) í heimsókn í Fjölbrautaskóla Suðurlands sem og nokkur fyrirtæki á Selfossi. Gestirnir voru auk forsetans skrifstofustjóri forsetaembættisins Árni Sigurjónsson,framkvæmdastjóri SI Orri Hauksson og forstöðumenn SI, þær Katrín D. Þorsteinsdóttir og Rakel Pálsdóttir. Gestirnir heimsóttu verknámið í Hamri, skoðuðu aðstöðuna þar og ræddu við nemendur og kennara. Því næst var haldið á sal skólans í Odda og var nemendum sýnt myndband þar sem nokkur tæknifyrirtæki eru kynnt, hvernig störfin þar eru og að það sé þörf á ungu fólki í þau og einnig var fjallað um menntunarmál frá sjónarhóli atvinnulífsins. Forsetinn ávarpaði svo nemendur og fjallaði um nýsköpun á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Hann hvatti nemendur til bjartsýni og til dáða á sviði nýsköpunar. Gestunum er þökkuð ánægjuleg heimsókn. Á myndinni má sjá Sigurð Grímsson, kennara málmiðna, nemendur í málmiðn, Forseta Íslands og Orra Hauksson, framkvæmdastjóra SI.