Samvinnuverkefni FSu og Árborgar

Í haust var í þriðja sinn farið af stað með samstarfsverkefni milli Fjölbrautaskóla Suðurlands og félagsþjónustu Árborgar. Í áfanganum Réttindi og samfélag (FÉLA3RS05) er nemendum boðið upp á að velja milli þess að koma inn sem þátttakendur með nemendum á starfsbraut, taka að sér liðveislu utan skólatíma eða skrifa ritgerð um fötlun og fötlunarfræði. Þessa önn voru óvenjumargir sem völdu annað hvort liðveislu eða þátttöku á starfsbraut og er það ánægjuefni. Tilgangur samstarfsverkefnisins er m.a. að auka vitund og fræðslu á málefnum fatlaðra og þeim daglegu hindrunum sem geta oft verið ósýnilegar öðrum. Ætlunin er að halda samstarfinu áfram og reyna að bjóða upp á þetta á hverri haustönn. Margir nemendur sem tóku að sér liðveislu í fyrri skiptin eru enn í því starfi. Fyrir hönd FSu koma að verkefninu Eyrún B. Magnúsdóttir, kennari og kennslustjóri félagsvísinda og Jóna Ingvarsdóttir, kennari á starfsbraut.  Halla Steinunn Hinriksdóttir, ráðgjafaþroskaþjálfi og Sigríður Elín Leifsdóttir, ráðgjafarþroskaþjálfi á þjónustusvæði Suðurlands í málefnum fatlaðra, koma að því fyrir hönd Árborgar.

Miðvikudaginn 21. október kom Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir sem gestafyrirlesari í sama áfanga. Jóna Heiðdís stóð að tilkomu Bataseturs Suðurlands, sem er félagsskapur einstaklinga með geðraskanir með bata og valdeflingu að leiðarljósi. Í fyrirlestrinum kynnti hún Batasetrið fyrir nemendum og kennara og ræddi almennt um geðveiki og áhrif geðsjúkdóma. Það er mikilvægt að halda umræðu um jafn falda sjúkdóma á lofti og voru nemendur mjög ánægðir með heimsóknina.

Batasetur á facebook: https://www.facebook.com/Batasetur?fref=ts