Sendiherrafrú í heimsókn
Fimmtudaginn 17. febrúar kom frú Gabriele Sausen, eiginkona þýska sendiherrans á Íslandi, í heimsókn í FSu. Í móttöku í þýska sendiráðinu í nóvember sl. hafði hún viðrað þá ósk sína við einn af þýskukennurum FSu að sig fýsti að kynnast af eigin raun starfseminni í íslenskum framhaldsskóla. Skólameistari FSu, Örlygur Karlsson, var ekki fráhverfur því að fá konuna í heimsókn. Kom frú Sausen færandi hendi, hitti nemendur í þremur efstu áföngunum í þýsku sem nú eru kenndir í FSu og ræddi við þá á þýsku að sjálfsögðu. Einnig leiddu þeir Hannes Stefánsson þýskukennari og Örlygur skólameistari hana um húsakynni skólans. Var hún ákaflega ánægð með heimsóknina og er óhætt að fullyrða, að nemendur ollu henni ekki vonbrigðum. Jafnframt færði hún skólanum góðar bækur að gjöf frá þýska utanríkisráðuneytinu og eru sumar þeirra þegar komnar á bókasafn FSu. Er það trúa vor að þær eigi eftir að verða nemendum FSu að gamni og gagni um ókomnar annir.