Sigurður Pálsson mætir í bókmenntatíma

Í Íslenskum nútímabókmenntum á þriðja þrepi er áhersla lögð á frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð nemenda eins og við má búast. Um daginn fengu nemendur það verkefni að velja sér ljóðskáld, kafa inn í hugarheim þess og kynna fyrir bekknum. Áhersla var lögð á að kynningin væri einlæg og persónuleg. Nemendur máttu ekki styðjast við glærur eða niðurskrifaðan texta heldur áttu þeir að mæla af munni fram og bregða lífi í efnið með því sem andinn blési þeim í brjóst. Nú reið á að bjarga sér! 

Þær stöllur  Katrín, Elena og Dagmar dóu ekki ráðalausar. Þær einfaldlega hringdu í ljóðskáldið og spurðu það spjörunum úr. Viðtalið tóku þær upp á vídeó og spiluðu fyrir bekkinn. -Og þannig varð það að Sigurður Pálsson mætti sjálfur í Nútímabókmenntir og leysti sjálfur verkefnið um sjálfan sig. Viðstaddir nutu góðs af sjálfsbjargarviðleitni stúlknanna og fengu ómetanlega innsýn í hugarheim Sigurðar sem svaraði öllum spurningum af stakri prúðmennsku og alúð.