SJÁLFBÆRT SAMFÉLAG FYRIR SJÁLFBÆRA SKÓLA

Átta kennarar frá tveimur erlendum skólum heimsóttu FSu í byrjun skólaársins og dvöldi hér í umsjá kennara FSu frá 24. til 28. ágúst. Annar skólinn er Lasnamae Gymnasium í Tallinn á Eistlandi og hinn er President Adamkaus Gymnasium í Kaunas í Litháen. Sameiginlegt verkefni þessarar heimsóknar nefnist á ensku Sustainable Community for Sustainable Schools eða sjálfbært samfélag fyrir sjálfbæra skóla og er á vegum Nordplus. Þetta er svokallað jobshadowing verkefni eða nokkurskonar skuggsjá þar sem skólabragur og allar aðstæður og aðbúnaður til kennslu er kannaður og borin saman.

Tæplega ári áður eða frá 10. til 15 október 2022 var verkefnið haldið í Tallinn á Eistlandi þar sem fjórir kennarar frá FSu tóku þátt og síðan að nýju þann frá 24. til 28 apríl 2023 í Litháen. Fulltrúar FSu í þessu spennandi verkefni hafa verið Kristjana Hrund Bárðardóttir enskukennari, Ester Ýr Jónsdóttir raungreinakennari og Anna Kristín Valdimarsdóttir myndlistarkennari auk Ragnheiðar Eiríksdóttur heimspekikennara og Guðbjargar Helgu Guðmundsdóttur stærðfræðikennara.

Erlendu gestirnir voru hæst ánægðir með heimsóknina. Þeim fannst FSu að utan sem innan alveg frábær. Kennarar og nemendur svo glaðir alla daga miðað við hvað búsetan er norðarlega á hnettinum. Fyrir utan að skoða skólahúsnæðið með gestsaugum fylgdust þau með kennslustundum og fóru í heimsókn í Stekkjaskóla sem þeim fannst alveg meiriháttar. Litháarnir voru duglegir að skoða landið og skoðuðu Reynisfjöru og Landmannalaugar. Öll óku þau Gullna hringinn og Kristjana Hrund fór með Eistana í bíltúr um hinn fagra Flóa: Urriðafoss, Knarrarósvita, Þuríðarbúð, fjöruna á Eyrarbakka. Allir skrifuðu nöfn og kveðjur í gestbókina í Hallskoti og enduðu á að klappa hestunum á Stekkum hjá Önnu Kristínu Valdimarsdóttur. Niðurstaðan var sú að þeim fannst þessi ferðamennska svo miklu meira virði og fróðlegri en að skoða hefðbundna ferðamannastaði.

khb / jöz