SKÓLASTARF KOMIÐ Á RÓL

Undirbúningur skólastarfs í FSu kallast einu nafni RÓL sem á sér merkingar eins og að vera komin á fætur eða vera á ferli eða röltinu svo eitthvað sé nefnt. Að minnsta kosti hefur eitthvað vaknað sem er komið á hreyfingu. Eins og skólastarf. Svo má finna þetta áhugaverða orð í bókmenntum eins og í bjarta sálminum: „Nú er ég klæddur og kominn á ról, kristur Jesús veri mitt skjól.” Og meira að segja í myrkviðum Grýlukvæðis stendur: „Nú er hún gamla grýla dauð, gafst hún upp á rólunum.” Hún gafst sem sagt upp á að hreyfa sig og er það öllum okkar til góðs.

En mest er um vert að skólastarf í FSu er komið á ról að nýju eftir fimm vikna verkfall við skólann og hátíð jólanna þar sem fagnað er hækkandi sól og fæðingu barns. Kennslu lauk 20. desember og námsmatsdagar hófust 2. janúar og endanleg skil á lokaeinkunnum nemenda er 6. janúar og prófsýning daginn eftir. Brautskráning nemenda sem hafa lokið námi fer síðan fram í hátíðarsal skólans (Gaulverjabæ) laugardaginn 11. janúar klukkan 14.00. Undirbúningur næstu annar hefst svo strax mánudaginn á eftir þann 13. og kennsla vorannar 2025 verður komin á fullt fimmtudaginn 16. janúar. Gleðilegt nýtt ár.

jöz.