SKÓLI ER EKKI BARA HÚS
„Því óvíst er að vita hvar óvinir sitja á fleti fyrir” segir í Hávamálum og kannski má heimfæra þessa lýsingu á nýjustu uppákomuna í FSu þegar skólanum var lokað miðvikudaginn 27. október vegna kórónuveiru faraldurs. Skyndilega í byrjun síðustu viku fóru starfsmenn að veikjast og brá skólameistari strax á það ráð að loka skólanum í samráði við rakningateymið. Ekki var ljóst í hvað stefndi og það svo metið að allur væri varinn góður.
Í skugga veirufaraldursins hefur skólastarf gengið glimrandi vel það sem af er þessari önn. Nemendur hafa virt grímuskyldu og í byrjun annar báru nánast allir grímur fyrir nefi og munni. Svo fór að losna um skylduna smátt og smátt og eftir afnám hinna opinberu hafta fór að halla á ógæfuhliðina. Miðvikudaginn 20. október var haldin mjög vel heppnuð áfangamessa í hátíðarsal skólans, Gaulverjabæ og var nándin þar óvenju mikil. Enda um áhugaverða kynningu á námi skólans að ræða sem er orðið afar fjölbreytt og nútímalegt. Þar má því segja að óvinurinn hafi setið þar á fleti fyrir.
EN SKÓLI ER EKKI BARA HÚS og var því tiltölulega auðvelt að bregðast við áfallinu. Öll bókleg kennsla skólans fer nefnilega fram í gegnum miðlægan gagnagrunn sem kallast INNA og með fartölvur að vopni geta nemendur og kennara á skilvirkan hátt skipt úr staðbundinni kennslu í fjarkennslu. Stefnt er að því að hefðbundið og lifandi skólastarf hefjist hins vegar aftur í komandi viku en þá líklega með grímuskyldu og frekari sóttvörnum.
jöz.