SÖGULEG ÚTSKRIFT í FSu

Þó vorveðrið hafi ekki verið upp á marga fiska föstudaginn 24. maí síðastliðinn var sérlega líflegt og bjart yfir útskriftarhátíð FSu og aflinn góður. Brautskráningin var söguleg í fernu tilliti. Aldrei hafa jafnmargir nemendur útskrifast frá skólanum í einu. Dúx Scholae Ólafía Guðrún Friðriksdóttir hlaut hæstu meðaleinkunn í sögu skólans, fyrsta konan var útskrifuð af vélvirkjabraut og skólameistari Olga Lísa Garðarsdóttir hélt sína síðustu útskriftarræðu eftir tólf ára farsæla stjórnun.

Ríflega 170 nemendur voru brautskráðir að þessu sinni af mörgum námsbrautum í bóknámi og verknámi eða samspili þessara tveggja. Í upphafi athafnar flutti kór skólans undir stjórn Stefáns Þorleifssonar inngangslag og nýstúdent Elísabet Björgvinsdóttir tróð upp með flottu lagi um miðbik athafnar.

Aðstoðarskólameistari Sigursveinn Sigurðsson flutti annál annarinnar sem er sú 86. í sögu skólans. Annállinn inniheldur ýmsar tölulegar upplýsingar auk greinargerðar um það sem gert er utan hefðbundins skólastarfs og minnir okkur á að skóli er meira en skólastofa. Hér skal nefna margskonar vettvangsferðir eins og að ganga á Eyjafjallajökul, skóla og fyrirtækjaheimsóknir, erlendar gestakomur og ferðalög, myndlistasýningar, nýjungar í námsframboði skólans, Kátir dagar og Flóafár, fjölbreytileg námskeið og þátttaka í Gettu betur.

Í ræðu sinni lagði skólameistari Olga Lísa Garðarsdóttir út af þeim tímamótum sem nýútskrifaðir nemendur standa á og felast í því að þegar einum áfanga í lífinu er lokið þá hefst nýr áfangi með nýjum áskorunum. Hún fjallaði meðal annars um vinnuálag nemenda og mikilvægi vinskapar á þessum mótunarárum auk þess sem hún lagði áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem draga saman allt það sem menntaðir einstaklingar og samfélög þurfa að stefna að. Að endingu kvaddi hún með þeim orðum að FSu væri lykilstofnun í sunnlensku samfélagi og að þar starfaði einvala og samhent lið. „Ég hef notið alls þess sem sunnlenskt samfélag hefur gefið mér, hér er mikil og góð samstaða og skólinn skipar mikilvægan sess í samfélaginu. Fyrir það þakka ég.”

Ræða brottfarenda var í höndum Elínar Þórdísar Pálsdóttur formanns nemendafélags FSu og fórst henni það sérlega vel úr hendi þar sem hún lagði meðal annars áherslu á hversu fjölbreyttur og litríkur skóli FSu væri og þjónaði ólíkum þörfum og getu nemenda sinna.

Auk viðurkenninga fyrir góðan námsárangur einstakra greina sem Sigursveinn Sigurðsson afhenti kom það að lokum í hlut Jóhönnu Ýrar Jóhannsdóttur formanns skólanefndar að útnefna Dúx Scholae. Að þessu sinni varð hlutskörpust Ólafía Guðrún Friðriksdóttir og hlýtur hún námsstyrk frá Hollvörðum skólans ásamt Silvíu Rós Valdimarsdóttur Nokkala og Vigdísi Jónu Árnadóttur sem brýtur blað því hún er fyrsta konan sem lýkur vélvirkjanámi frá FSu. Í námsárangri talið má fullyrða að Ólafía hafi náð lengst að þessu sinni því auk þess að fá Hollvarðastyrk með Vigdísi bar hún af sviði fangið fullt af verðlaunabókum.

Á útskriftardegi fléttast saman menntun og menning, tilhlökkun og tregi, stolt yfir stöðnum einingum og árangri í námi, hugleiðing um horfin veg og hvað sé handan hæðarinnar en umfram allt ósk okkar allra um bjarta framtíð. Hefð er fyrir því að vitna til hins nafnlausa skólaskálds á útskriftardegi og að þessu sinni lagði það út af Klárunum (sem eru að klára sitt nám) og síðusta skóladegi þeirra sem kallaður er dimmisjón en þá klæðast nemendur búningum:

Kærleiksbirnir komu í hús

kátir leystu slungna þraut.

Eftir skraf og kveðjuknús

keikir feta nýja braut.

 

jöz.