Staða kjaraviðræðna Félags framhaldsskólakennara og ríkisins
Viðræðunefndir Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum hafa fundað nær daglega undanfarnar tvær vikur, bæði á vinnufundum og formlegum fundum undir stjórn sáttasemjara. Þetta kemur fram á heimasíðu Kennarasambands Íslands www.ki.is. Þar kemur jafnframt fram að erfitt sé að spá nokkru um árangur á næstu dögum en að samningsaðilar séu sammála um að kappkosta að ná niðurstöðu um nýjan kjarasamning áður en til boðaðra verkfalla kemur í framhaldsskólum 17. mars.
Menntamálaráðuneytið hefur sent frá sér tilkynningu um að viðræður ríkisins við framhaldsskólakennara um kjarasamning séu í fullum gangi og að reynt verði til þrautar að ná samkomulagi svo að ekki komi til verkfalls. Mikilvægt sé að nemendur stundi nám sitt áfram af kostgæfni þrátt fyrir tímabundið óvissuástand. Fari svo að verkfall verði í næstu viku muni skólar vera áfram opnir nemendum og ráðuneytið muni eiga samstarf við skólameistara um ráðstafanir til að sem minnst rof verði á námi nemenda.