Starfsmenntun- hvert skal stefna?
Í vikunni var haldinn fundur um framtíð starfsmenntar á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins á Hótel Rangá. Þetta var fyrsti landshlutafundurinn í fundarröð ráðuneytisins um þetta málefni og tengist innleiðingu nýrra laga um menntun og stefnumótun um starfsmenntun til framtíðar.
Þátttakendur á fundinum voru fulltrúar framhaldsskóla, grunnskóla, fræðslunefnda, foreldra, atvinnulífs, framhaldsfræðsluaðila, atvinnuþróunarfélaga, nemenda, sveitarstjórna, fræðslustjórar og náms- og starfsráðgjafar.
Umræðuefnið var fjölbreytt, m.a var rætt um hvernig gera megi starfsmenntun sýnilegri og eftirsóknarverðari fyrir nemendur óháð aldri, kyni, búsetu og uppruna. Einnig var rætt um framboð og eflingu starfsmenntunar á Suðurlandi og hverjar þarfir landshlutans eru fyrir starfsmenntun.
Fulltrúar frá FSu voru: Agnes Ósk náms-og starfsráðgjafi, Grímur Lúðvíksson og Svanur Ingvarsson verkmenntakennarar og Ægir Sigurðsson sviðstjóri og kennari. Einnig tóku þátt nemendurnir Anna Rut Arnardóttir, Aldís Þórunn Bjarnadóttir, Jóhann Reynir Sveinbjörnsson og Hróbjartur Heiðar Ómarsson. Jóhann Reynir og Hróbjartur héldu erindi um nám sitt í FSu og stóðu sig með stakri prýði. Myndin er tekin af þátttakendum FSu á fundinum.