STIGI JÓNASAR
DAGUR ÍSLENSKRAR TUNGU er í dag 16. nóvember en þá fæddist þjóðskáldið og snillingurinn og náttúrufræðingurinn og orðasmiðurinn Jónas Hallgrímsson árið 1807. Hann lifði því miður ekki langa ævi og lést í Kaupmannahöfn árið 1845. Sagan af aðdraganda andláts hans er þekkt og býr í þjóðarminninu. Hann féll í stiga á leiðinni í herbergið sitt eftir dvöl á kránni Hviids Vinstue. Þó ævi hans hafi ekki verið löng (36 ár) skilur hann eftir sig afköst og sköpun sem fáir komast yfir. Kannski má segja að hann sé Mozart okkar Íslendinga sem var hálfri öld eldri en Jónas og lifði aðeins í 35 ár. Báðir voru þeir grafnir í ómerktum leiðum.
Einn helsti fræðingur FSu um Jónas Hallgrímsson er sögukennarinn og Rangæingurinn Lárus Ágúst Bragason sem gerði sér lítið fyrir og fór til Kaupmannahafnar fyrir mörgum árum og mældi upp stigann í húsi því sem Jónas bjó síðustu árin. Heimkominn setti hann sig í samband við smíðakennara skólans og snillinginn Svan Ingvarsson sem smíðaði stigann í smærri hlutföllum. Stigi Jónasar hefur síðan þá prýtt bókasafn FSu og er minnisvarði okkar um þennan merka mann sem skildi eftir sig lífsstarf sem við erum enn að vinna úr.
jöz.