STÓRFÍN HEIMSÓKN Á BYGGÐASAFNIÐ
Á Byggðasafni Árnesinga er verið að rifja upp góðar og fræðandi heimsóknir Árna Erlingssonar með nemendur húsasmíðabrautar FSu á Eyrarbakka. Vonir eru bundnar við það að þráðinn verði hægt að taka upp með samstarfi fagmanna á Eyrarbakka, Byggðasafnsins og kennara Fjölbrautaskóla Suðurlands. Til stendur að vinna námsefni fyrir nemendur sem byggir m.a. á því góða sem Árni skildi eftir sig bæði á prenti og í minni þeirra sem unnu með honum á sínum tíma. Einn þeirra er Gísli Kristjánsson smiður á Eyrarbakka sem ásamt bróður sínum hefur komið að húsaviðgerðum og viðhaldi fjölda gamalla húsa.
Laugardaginn 11. febrúar síðastliðinn var tónninn sleginn í þessu nýja samstarfi þegar nemendur í trésmíðnámi kvöldskólans heimsóttu safnið ásamt kennara sínum, Hjalta Guðmundssyni og fagstjóra tréiðna í FSu Lárusi Gestssyni. Magnús Karel Hannesson og Gísli Kristjánsson tóku á móti hópnum og sögðu frá Húsinu, Eyrarbakka, byggðarþróun og sýndu mýmörg dæmi um húsaviðgerðir og breytingar gamalla húsa, þar sem húsum hefur verið komið aftur í sína upprunalegu mynd.
Að sögn Ragnhildar Elísabetar Sigfúsdóttur safnvarðar á Byggðasafninu var þetta stórfín og fræðandi heimsókn úr hennar gamla skóla með gjöfult samstarf þessara aðila að leiðarljósi.
res / jöz