Stórskemmtileg söngkeppni
Rómantískir andar svifu yfir vötnum á vel heppnaðri söngkeppni Nemendafélags FSu sem haldin var í íþróttahúsinu Iðu í gærkvöldi, en yfirskrift kvöldsins var Allt fyrir ástina. Iða var skreytt hátt og lágt í rómantískum stíl, hörpuleikari lék ástarlög á meðan áhorfendur komu sér fyrir í salnum og fiðluleikarar töfruðu fram ástarljóð í anddyri Iðu. Á milli söngatriða fengu áhorfendur að fylgjast með ástarsögu í beinni sem leikklúbbur nemendafélagsins hafði samið og útfært.
Sigurvegari kvöldsins var Gunnlaugur Bjarnason sem söng GusGus lagið Within you. Í öðru sæti varð Jökull Logi Arnarsson sem söng lagið Queen of Denmark og Írena Víglundsdóttir hafnaði í 3. sæti með lagið Roxanne, en Írena sigraði einnig símakosningu keppninnar.
Fimmtán tónlistaratriði voru á dagskrá og mikill metnaður og hæfileikar sem þar komu fram og átti dómnefndin erfitt hlutverk fyrir höndum að velja einn sigurvegara. Í dómnefnd sátu Þórunn Antonía söngkona, tónlistarmaðurinn Haffi Haff og Páll Sveinsson, trommuleikari.
Keppnin var afar vel sótt, en um 800 áhorfendur fylltu Iðu og er það aðsóknarmet á þennan stærsta viðburð nemendafélagsins á haustönn.
Á myndinni má sjá Gunnlaug Bjarnason koma fram. Myndina tók Guðmundur Karl Sigurdórsson.