Stuð í BOXI
Sl. laugardag tók lið frá FSu þátt í úrslitum BOXINS – framkvæmdakeppni framhaldsskólanna. Þetta er í sjötta sinn sem keppnin er haldin og í fjórða skipti sem FSu tekur þátt og hefur í öll skiptin komist í úrslitin.
Úrslitin voru að venju haldin í húsakynnum Háskólans í Reykjavík, en hann ásamt Samtökum iðnaðarins og Félagi framhaldsskólanema skipuleggja keppnina.
Um þrautabraut er að ræða sem átta fyrirtæki, öll í Samtökum iðnaðarins, sjá um. Í ár voru það þessi fyrirtæki:: Trefjar, Marel, Verkís, Íslenskir aðalverktakar, CCP, Orkuvirki, ORF Líftækni og Matís.
Þrautirnar voru ólíkar, en allar bráðskemmtilegar og reyndu á fjölþætta styrkleika. Lið FSu gekk bráðvel þó ekki hafi það vermt fyrstu þrjú sætin, en bæði Verkís og Íslenskir aðalverktakar sáu ástæðu til þess að verðlauna þau sérstaklega fyrir vel unnið verk og góðan liðsanda og samvinnu.
Sem fyrr segir komast átta framhaldsskólar í úrslitakeppnina og þeir sem öttu kappi ásamt FSu voru Menntaskólinn í Hamrahlíð sem sigraði, Kvennó sem hreppti annað sæti, Menntaskólinn í Reykjavík sem vermdi þriðja sætið, Tækniskólinn, Menntaskólinn á Laugarvatni, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti og Menntaskólinn í Kópavogi.
Lið FSu skipuðu þau Aron Óli Lúðvíksson, Eydís Arna Birgisdóttir, Ísak Þór Björgvinsson, Sigurður Smári Davíðsson og Þórir Gauti Pálsson og voru þau sér og skólanum til mikils sóma. Liðsstjóri var Ágústa Ragnarsdóttir. Þáttur um keppnina verður sýndur á RÚV á nýju ári.