Sumardagurinn fyrsti í Garðyrkjuskólanum
Samkvæmt venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum að Reykjum. Áratuga hefð er að opna staðinn fyrir gestum þennan dag og fagna sumarkomunni. Að koma í sumarfötunum og gleðjast saman er löngu orðinn fastur liður hjá fjölda manns.
Nemendur og starfsmenn Garðyrkjuskólans FSu bjóða heim í tilefni af sumarkomunni. Í Garðyrkjuskólanum á Reykjum verður líf og fjör milli kl. 10:00 og 17.00. Í Garðskálanum verður opið markaðstorg með garðyrkjuafurðir. Í boði verður alls kyns grænmeti, trjáplöntur, afskorin og pottablóm, jarðarberjaplöntur og margt fleira. Einnig verður kynnt námsframboð og endurmenntun við skólann. Veitingasalan verður á sínum stað þar sem boðið verður uppá heimabakað ljúfmeti að hætti hússins. Í gróðurhúsunum er hægt að njóta gróðursins, nemendur skólans kynna verkefni sín og fyrirtæki í garðyrkjugeiranum verða með fulltrúa á staðnum. Kl. 13:30 hefst hátíðardagskrá í Garðskálanum. Þar heiðra okkur m.a. með nærveru sinni forseti Íslands, Halla Tómasdóttir og mennta- og barnamálaráðherra, Guðmundur Ingi Kristjánsson. Margt fleira verður sér til gamans gert en allra skemmtilegast er að mæta í sumarfötunum og gleðjast saman. Veðurspáin er frábær svo þetta verður áreiðanlega frábær dagur.