TENGSL SKÓLASTARFS OG ATVINNULÍFS

Steinar Guðjónsson, formaður FRS, ásamt Olgu Lísu Garðarsdóttur skólameistara FSu.
Steinar Guðjónsson, formaður FRS, ásamt Olgu Lísu Garðarsdóttur skólameistara FSu.

Gjafir berast reglulega skólastarfinu í FSu. Að baki þeim býr stuðningur frá fyrirtækjum og félagasamtökum í þeim tilgangi að efla menntunina sem þar fer fram og uppfæra tæki og tækni sem eru í stöðugri þróun. Það er mikilvægt að atvinnulíf og öflugt skólastarf séu í gagnvirku og skilningsríku sambandi og segja má að gjafir af þessu tagi séu táknmynd þessa samstarfs.

Við upphaf haustannar barst FSu höfðingleg gjöf frá Félagi rafiðnaðarmanna á Suðurlandi (FRS). Um er að ræða tíu skjástýrivélar af gerðinni Unitronics Samba 43. Þessi búnaður er notaður til kennslu í lokaáfanga stýringa. Vélarnar auka hæfni nemenda í forritun iðnstýringa auk gerð skjámynda og notendaviðmóts.

Félagsmenn FRS settu vélarnar saman og útbjuggu þær í sérstaka kassa sem gerir nemendum kleift að sannprófa virkni þeirra. Að sögn Jóhanns Snorra Bjarnasonar kennara í rafiðn „kemur búnaður sem þessi alltaf í góðar þarfir og mun efla rafiðnardeild FSu enn frekar. FSu þakkar kærlega fyrir þessa gjöf sem kemur að góðum notum fyrir skólahald um leið og hún styrkir tengsl skólans við atvinnulífið.”

jöz.