ÞAR SEM JÖRÐIN SKELFUR OG ELDAR KVIKNA

Þriðjudaginn 17. október síðastliðinn hélt hugrakkur hópur jarðfræðinema í FSu í námsferð á Reykjanesskaga þar sem jörð skelfur þessa dagana og eldar geta gosið. Ferðin var að frumkvæði og í umsjón Heklu Þallar Stefánsdóttur kennara og tilgangur hennar að fræðast um hin ýmsu jarðfræðilegu fyrirbæri Reykjanesskaga.

Byrjað var á að ganga inn í Nátthaga til að skoða hraunið sem þar hefur runnið úr eldgosum síðustu missera. Veðrið var ansi lifandi og skemmtilegt, hífandi rok og úrhellis demba. Það stoppaði þó ekki nemendur sem skokkuðu að hrauninu þessa tæpu tvo kílómetra frá bílastæðinu inn í Nátthaga. Við blasti ægifögur sjón - en þar sem það rigndi mikið þá rauk svo vel úr hrauninu sem bjó til kröftugt sjónarspil.

Næst var förinni heitið að Seltúni, háhitasvæði nálægt Krýsuvík. Þar voru nemendur með skemmtilega leiðsögn um svæðið sem þeir höfðu sjálfir undirbúið fyrir ferðina. Að lokum var keyrt fram hjá Grænavatni eða Gígvatnsvatni sem er stærsti sprengigýgur á svæði Krýsuvíkur og hefur einstaklega fallegan grænan blæ vegna samblöndu brennisteinstegunda. Að lokum var haldið heim á leið þar sem ekki fannst þurr þráður á nemendum eftir fræðandi og fjöruga útivist.

hþs / jöz