Þórir Geir sigraði
Söngkeppni Nemendafélags FSu fór fram í liðinni viku. Þórir Geir Guðmundsson stóð uppi sem sigurvegari kvöldsins með laginu Ég fer ekki neitt eftir Sverri Bergmann. Hann keppir fyrir skólans hönd í söngkeppni framhaldsskólanna eftir áramót. Í öðru sæti varð Sóley Sævarsdóttir með lagið Hot stuff, en Sóley hlaut einnig viðurkenningu fyrir bestu sviðsframkomuna. Í þriðja sæti varð Heiðrún Huld Jónsdóttir með lagið Another one bites the dust.
Öll umgjörð keppninnar var hin glæsilegasta, en þema kvöldsins var í anda teiknimyndarinnar Frozen. Iða íþróttahús skólans var smekkfullt af áhorfendum, en um 850 manns mættu og virtust njóta skemmtunarinnar. Daníel Haukur, fyrrum nemandi skólans opnaði kvöldið ásamt Huldu Kristínu Kolbrúnardóttur, nemanda og fyrrum sigurvegara söngkeppninnar. Þau sungu lög úr teiknimyndinni Frozen með glæsibrag. 12 keppendur tóku þátt og stóðu sig allir mjög vel með góðum stuðningi húshljómsveitarinnar, en hana skipuðu þeir Fannar Freyr Magnússon, Marinó Geir Lillendahl, Guðmundur Reynir Gunnarsson og Steinþór Guðjónsson. Kynnar kvöldsins voru Sveppi og Ragnhildur Steinunn.
Á myndinni má sjá sigurvegarann Þóri Geir taka lagið. Myndina tók Hermann Snorri, en fleiri myndir má finna á fésbókarsíðu skólans. https://www.facebook.com/fjolbrautaskolisudurlands?ref=ts&fref=ts