TUTTUGU OG SEX SVEINAR Í HÚSASMÍÐI
07.07.2023
Helgina 2. júní til 4. júní síðastliðinn var haldið sveinspróf í húsasmíði við FSu en sveinspróf iðngreina krefst mikils undirbúnings bæði af kennurum og nemendum. Prófið hófst stundvíslega klukkan 8.30 en prófað er bæði í bóklegum efnum og verklegum. Að sögn Lárusar Gestssonar fagstjóra tréiðna er sveinspróf „hvort tveggja í senn afar skemmtilegur en krefjandi tími fyrir nemendur. Mikil vinna á krefjandi lokaönn í skóla og svo þriggja daga lokapróf.”
Einkunnir voru síðan afhentar fimmtudaginn 8. júní og luku allir nemendur prófi með fullnægjandi einkunn og var sú hæsta 9,3 sem telst mjög góður árangur í sveinsprófi.
jöz.